Landsbankinn hefur gert samkomulag um kaup á Cheshire Guernsey Limited (CGL), banka með höfuðstöðvar á eynni Guernsey í Ermasundi, segir í fréttatilkynningu Landsbanka, en seljandi er Cheshire Building Society í Bretlandi.

Kaupverðið er 1,2 milljónir sterlingspunda auk greiðslu fyrir eigið fé félagsins (20,1 milljón pund skv. uppgjöri 30.júní).

CGL býr að traustum og góðum hópi viðskiptavina og hentar vel sem innlánsbanki fyrir alþjóðlega fjárfesta sem tengjast Bretlandseyjum. Kaupin gefa Landsbankanum færi á að ná skjótri og öruggri fótfestu á markaði fyrir alþjóðleg innlán og leggja þar með góðan grunn að áframhaldandi uppbyggingu alþjóðlegrar innlánastarfsemi, sagði Landsbanki.


Cheshire Building Society stóð að stofnun CGL árið 1997 með það að markmiði að bjóða breskum og alþjóðlegum sparifjáreigendum upp á innlán í sterlingspundum. Heildarinnlán nema nú um 110 milljónum sterlingspunda.

CGL býður viðskiptavinum sínum upp á úrval reikninga sem ýmist eru með föstum eða breytilegum vöxtum og eru bundnir til mislangs tíma. Landsbankinn mun bæta og breikka úrval sparnaðarleiða; svo sem með því að bjóða upp á netreikninga og innlánsreikninga fyrir stofnanir og fyrirtæki. Daglegur rekstur CGL verður í höndum samstarfsaðila Landsbankans á Guernsey, segir í tilkynningunni.

Kaupin eru í samræmi við stefnu Landsbankans að fjölga stoðum í fjármögnun hans. Dótturfélag Landsbankans í London, Heritable Bank, og útibú Landsbankans í London, hafa nú þegar náð góðum árangri við söfnun innlána og mun sú starfsemi aukast á komandi mánuðum með aukinni þjónustu í viðskiptastarfsemi í Bretlandi, sagði Landsbanki.

Samkomulagið er háð samþykki yfirvalda á Íslandi og Guernsey og er gert ráð fyrir að kaupin gangi í gegn fyrir lok september. Þá verður nafni fyrirtækisins breytt í Landsbanki Guernsey Limited.