Þann 22. desember sl. var tilkynnt að Landsbankinn, sem er í 80% eigu ríkisins, hefði keypt 51% hlutafjár í Rose Invest hf., rekstrarfélagi verðbréfasjóða í eigu Sigurðar B. Stefánssonar og Svandísar Rúnar Ríkarðsdóttur, sem stofnað var í desember 2008.

Umsókn Landsbankans um kaup á meirihluta í félaginu er nú í ferli hjá Fjármálaeftirlitinu.

Í tilkynningu frá Landsbankanum í desember kom fram að sjóðir Rose Invest yrðu reknir áfram auk þess sem sjóðir Landsvaka verða færðir inn í hið nýja félag. Sameinað félag mun starfa undir merkjum Landsbréfa. Þá kom einnig fram að þau Sigurður og Svandís Rún kæmu til starfa á Eignastýringarsviði Landsbankans snemma á þessu ári. Landsbréf verða samkvæmt þessu í 51% eigu Landsbankans og 49% eigu Sigurðar og Svandísar Rúnar.

Sigurður B. Stefánsson, fyrrv. eigandi Rose Invest og stjórnarmaður í Bankasýslu ríkisins.
Sigurður B. Stefánsson, fyrrv. eigandi Rose Invest og stjórnarmaður í Bankasýslu ríkisins.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Sigurður B. Stefánsson

Situr í stjórn Bankasýslunnar

Auk þess að eiga og reka Rose Invest situr Sigurður jafnframt í stjórn Bankasýslu ríkisins. Í samtali við Viðskiptablaðið sagðist Sigurður ekki lengur sitja í stjórn Bankasýslunnar. Þegar blaðamaður benti á að engin formleg tilkynning hefði borist um afsögn hans úr stjórninni og að nafn hans væri enn inni á vef Bankasýslunnar, sagði Sigurður að hann hefði ekki tekið þátt í störfum stjórnarinnar frá því í byrjun desember og hygðist segja sig úr stjórn um leið og kaupin gengju í gegn. Þá segir Sigurður að ekkert samhengi væri á milli kaupanna og setu hans í stjórn Bankasýslunnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.