Undirrituð hefur verið viljayfirlýsing um að Landsbankinn kaupi nýtt hlutafé í Arion verðbréfavörslu hf.  Arion banki er í dag eigandi alls hlutafjár. Viljayfirlýsingin er undirrituð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki eftirlitsstofnana. Við kaup Landsbankans á nýju hlutafé í Arion verðbréfavörslu verður nafni félagsins breytt í Verdis.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsbankanum.

Tilkynningin í heild:

„Arion verðbréfavarsla er þjónustufyrirtæki fyrir innlendar og erlendar fjármálastofnanir og fyrirtæki á fjármálamarkaði. Það býður sérsniðnar og einfaldar lausnir í vörslu verðbréfa, bakvinnslu og umsýslu verðbréfasjóða.

Samkvæmt yfirlýsingunni munu Landsbankinn og Verdis gera með sér þjónustusamning sem felur í  sér að Verdis annast uppgjör og vörslu verðbréfa og þjónustu fyrir Landsbankann og dótturfélag Landsbankans sem rekur verðbréfa, fjárfestingar – og fagfjárfestasjóði.

Markmiðið með kaupunum er að ná fram hagræðingu. Það verður gert með aukinni sjálfvirkni og samnýtingu starfsfólks og ýmissa rekstrarþátta.  Auk þess verður mun hagkvæmara að byggja upp þekkingu, rekstur og tölvukerfi á einum stað.

Engar uppsagnir verða við þessa breytingu en starfsfólk frá Landsbankanum mun  flytjast til Verdis. Starfsfólk Landsbankans og þeirra þekking verður mikilvæg viðbót við þann öfluga hóp starfsmanna sem í dag starfar hjá Arion verðbréfavörslu.

Forsvarsmenn Arion banka og Landsbankans eru einhuga um að fjölga hluthöfum Verdis í framtíðinni og er stefnt að því að sameiginlegur eignarhlutur þeirra verði kominn niður fyrir 50% innan þriggja ára.

Stefnt er að undirritun samnings í samræmi við efni viljayfirlýsingarinnar fyrir 30. apríl 2011.“