Landsbanki Íslands hefur samþykkt að kaupa írska hlutabréfa- og ráðgjafafyrirtækið Merrion Capital fyrir 55,3 milljónir evra, sem samsvarar rúmlega fjórum milljörðum íslenskra króna, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Fyrirtækið er þriðja hlutabréfafyrirtækið sem Landsbankinn kaupir á þessu ári, en í vor keypti bankinn breska félagið Teather & Greenwood fyrir 43 milljónir punda og nú nýlega 81% hlut í evrópska fyrirtækinu Kepler Equities. Kaupverðið á Kepler miðað við 100% hlut nemur 90 milljónum evra.

Landsbankinn hefur samþykkt að kaupa 50% hlut í Merrion fyrir 27,65 milljónir evra og mun svo eignast allt hlutafé á næstu þremur árum ef afkoma Merrion stenst væntingar. Kaupverðið miðað við 100% hlut nemur 55,3 milljónum evra.