Landsbankinn hefur keypt 51% hlutafjár í Rose Invest hf. sem er rekstrarfélag verðbréfasjóða í eigu Sigurðar B. Stefánssonar og Svandísar Rúnar Ríkarðsdóttur. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki eftirlitsstofnana og niðurstöður áreiðanleikakönnunar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum. Segir að starfsleyfi Rose Invest taki til reksturs verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu og fjárfestingarráðgjöf. „Rose Invest hf. starfrækir verðbréfasjóðinn River Rose og fagfjárfestasjóðinn Purple Rose.

Sjóðir Rose Invest verða reknir áfram á sama hátt og verið hefur og Rose Invest verður rekið sem sjálfstætt og óháð félag í eigu Landsbankans.

Landsbankinn hyggst styrkja starfsemi sína á sviði eigna- og sjóðastýringar og það er mat stjórnenda bankans að starfsemi Rose Invest samræmist vel þeim markmiðum sem Landsbankinn hefur sett sér um þjónustu við viðskiptavini á sviði sjóðastýringar.

Á fyrri hluta næsta árs koma báðir eigendur Rose Invest, þau Sigurður og Svandís, til starfa á Eignastýringarsviði Landsbankans. Þá mun rekstur sjóða Landsvaka hf. færast undir Rose Invest hf. sem fær nafnið Landsbréf og verður óháð dótturfélag Landsbankans.

Lögð verður rík áhersla á að hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina í sjóðum beggja félaga séu  tryggðir og að Landsvaki hf. geti staðið við allar sínar skuldbindingar.

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir framkvæmdastjóri Eignastýringar Landsbankans telur kaupin mikilvægan þátt í þeirri framtíðaruppbyggingu sem Landsbankinn vinnur að í starfsemi sinni.,,Áratugareynsla og þekking starfsmanna Rose Invest hf. mun nýtast bankanum mjög vel í þeirri uppbyggingu sem á sér stað í eignastýringu bankans en Landsbankinn ætlar sér að ná miklum árangri á því sviði.“

„Við sjáum mikil tækifæri á þessum tímamótum og hlökkum til samstarfs við sterkan hóp hjá Eignastýringu Landsbankans. Ljóst er að viðskiptavinir Rose Invest hf. munu hafa ávinning af því að tengjast traustum innviðum Landsbankans,“ segja Sigurður B Stefánsson og Svandís Rún Ríkarðsdóttir,“ segir í tilkynningu.