Skiptastjóri þrotabús BM Vallár hefur tekið tilboði Landsbankans um kaup bankans á rekstrareiningunum Vírneti í Borgarbyggð, Límtré á Flúðum og Yleininga í Reykholti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankans. Þessar rekstrareiningar voru sá hluti af rekstri BM Vallár hf. sem fjármagnaður var af Landsbankanum.

Aðstoðarforstjóri verður framkvæmdastjóri

Nýtt rekstarfélag í eigu Landsbankans mun taka við rekstri þessara eininga frá og með 25. maí. Nýir stjórnendur taka við rekstrinum frá og með þeim degi. Framkvæmdastjóri nýs rekstrarfélags verður Stefán Logi Haraldsson, núverandi aðstoðarforstjóri BM Vallár og fyrrverandi framkvæmdastjóri Límtré-Vírnets.

„Með þessu kaupum tekst að tryggja 66 störf í Borgarbyggð, Reykholti og að Flúðum og verður öllum starfsmönnum á þessum stöðum boðið starf í hinu nýju félagi.  Landsbankinn hyggst selja rekstrarfélagið innan 6 mánaða og verður sú sala og fyrirkomulag hennar auglýst og kynnt nánar eins skjótt og auðið er," segir í tilkynningunni.

Fulltrúar Landsbankans hafa þegar kynnt fyrirætlanir sínar fyrir starfsmönnum, verkalýðsfélögum og sveitarstjórnarmönnum á viðkomandi svæðum.

Límtré/Vírnet byggir á rekstri gamalgróinna fyrirtækja. Límtré á Flúðum framleiðir burðarvirki úr límtré fyrir innlendan og erlendan markað. Vírnet í Borgarbyggð framleiðir klæðningar, þakstál og festingar í byggingariðnaði og Yleiningar úr Reykholti framleiða einangraðar stáleiningar til bygginga.