Kepler | Landsbanki, sem er dótturfélag Landsbankans, hélt viðamikla ráðstefnu um nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa í París á dögunum þar sem bankinn kynnti fjárfestingakosti á þessu sviði.

Í frétt bankans er þess getið að Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri, hafi í settningaræðu kynnt sýn Landsbankans á þróun nýtingar endurnýjanlegra orkugjafa og kynnti ákvörðun bankaráðs þess efnis að leggja enn frekari áherslu á þetta svið fjármögnunar. Halldór lagði ennfremur áherslu á sterka stöðu Íslands í þessum efnum, en 72% heildarorkunýtingar á Íslandi kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum samanborið við heimsmeðaltal sem er aðeins um 13%.

Í frétt bankans kemur fram að landsbankasamstæðan hefur um árabil tekið þátt í fjármögnun fjölþættra verkefna á sviði endurnýjanlegrar orku og á ráðstefnunni kynntu 22 leiðandi fyrirtæki í Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada starfsemi sína og mögulega fjárfestingarkosti fyrir rúmlega 200 sérhæfðum stofnanafjárfestum. Þrjú íslensk fyrirtæki voru á meðal þeirra sem kynntu starfsemi sína; Hitaveita Suðurnesja hf., Jarðboranir hf. og Enex hf. Sérstaða Íslands í nýtingu endurnýjanlegra orkulinda vakti áhuga og stórir fjárfestingaraðilar sýndu íslensku fyrirtækjunum þremur mikinn áhuga. Meðal annarra sem kynntu starfsemi sína á ráðstefnunni voru fyrirtæki sem sérhæfa sig í sólar-, vind- og jarðvarmaorkuvinnslu auk fyrirtækja sem framleiða lífefnaeldsneyti.

?Þessi ráðstefna er til marks um aukna áherslu Landsbankans og verðbréfafyrirtækja bankans í Evrópu á fjármögnun á sviði endurnýjanlegrar orku. Landsbankasamstæðan hefur sterka stöðu sem stærsti greiningaraðili á evrópskum hlutabréfamörkuðum. Dótturfyrirtæki bankans, Kepler Equites, Merrion og Teather&Greenwood greina með fyrirtækjagreiningum yfir 800 fyrirtæki í Evrópu og þar af eru um 40 á sviði orkumála,? segir Halldór J. Kristjánsson bankastjóri Landsbankans.