Ný Landsbankinn hefur hafið markaðssetningu á nýrri innlánavöru í Bretlandi , sem kallast ?Icesave", segir í tilkynningu.

Í tilkynningunni segir að um sé að ræða sérsniðna sparnaðarleið fyrir breskan markað sem eingöngu er boðið upp á netinu. Á næstu misserum verður vöruframboð Landsbankans undir heitinu Icesave aukið enn frekar.

?Nýjungarnar í innlánastarfseminni í Bretlandi eru hluti af áframhaldandi vexti Landsbankans á breska markaðnum sem er sá mikilvægasti fyrir bankann utan Íslands," segir í tilkynningunni.

Umtalsverð aukning hefur orðið í innlánum fyrirtækja og einstaklinga í Bretlandi hjá Landsbankanum og dótturfélagi hans, Heritable Bank, en útibú Landsbankans í London hefur boðið upp á innlán frá árinu 2005 en Heritable Bank síðan 2003.

Hin nýja innlánavara á Bretlandsmarkaði, Icesave, kemur í kjölfar kaupa Landsbankans á innlánastofnun á Guernsey. Starfsemin felur í sér áhugaverða möguleika til þess að auka enn fjölbreytnina í fjármögnun bankans samhliða auknum umsvifum í Bretlandi.

Landsbankinn mun einnig áfram kanna tækifæri á alþjóðlegum innlánamörkuðum í því augnamiði að styrkja enn frekar starfsemi bankans utan Íslands. Með tilkomu Icesave og annarra innlánaverkefna stefnir Landsbankinn að því að hækka á næstu tveimur til þremur árum innlán sem hlutfall af heildarfjármögnunbankans.

Vörumerkið Icesave tilheyrir Landsbankanum en reksturinn er í höndum Heritable Bank, dótturfélags Landsbankans í London. Mark Sismey-Durrant, forstjóri Heritable, hefur yfirumsjón með Icesave ásamt því að sinna áfram öðrum skyldum.

"Það er ánægjulegt fyrir okkur að kynna Icesave á Bretlandsmarkaði. Verkefnið byggist á vel heppnaðri reynslu okkar í innlánum á þessum markaði og mun styrkja fjármögnun bankans." segir Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri.

Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri segir: "Við höfum trú á því að sú hugmyndafræði okkar að bjóða upp á úrval af innlánavörum verði vel tekið í Bretlandi og annars staðar enda bjóðum við upp á mjög samkeppnishæfa vöru sem mun höfða vel til væntanlegra viðskiptavina bankans í Bretlandi."