Landsbankinn lækkar vexti til bæði einstaklinga og fyrirtækja, eftir tæpa viku, eða frá og með 1. desember næstkomandi, en bankinn tilkynnir um vaxtalækkunina viku eftir að Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 0,25 prósentustig .

Vaxtahækkun Landsbankans frá í nóvember á föstum óverðtryggðum vöxtum íbúðalána stendur þó óbreytt, en breytilegu vextirnir lækka sem þá stóðu óbreyttir lækka nú.

Viðskiptablaðið sagði frá um miðjan þennan mánuð þegar bankinn hækkaði vexti um á bilinu 0,15 til 0,2 prósentustig, strax daginn eftir tilkynninguna, utan vaxtanna á breytilegum óverðtryggðum íbúðalánum sem stóðu þá í stað í 3,5%.

Nú lækka þeir um  um 0,20 prósentustig, meðan breytilegir vextir á verðtryggðum íbúðalánum lækka um 0,1 prósentustig, en í dag eru þeir í 2,0% að því er hægt er að sjá á vef Aurbjargar . Í september hækkuðu jafnframt fastir óverðtryggðir vextir íbúðalána bankans um 0,15 til 0,2 prósentustig, upp í 4,25% fyrir grunnlán og 5,2% fyrir viðbótarlán, en þeir eru nú óbreyttir.

Kjörvextir óverðtryggðra útlána til fyrirtækja lækka um 0,20 prósentustig og kjörvextir verðtryggðra útlána lækka um 0,10 prósentustig. Yfirdráttarvextir lækka um 0,10-0,25 prósentustig. Innlánsvextir eru ýmist óbreyttir eða lækka um 0,05-0,25 prósentustig.