Mikil átök hafa staðið um fyrirtækið Vörumerkingu Í Hafnarfirði undanfarna daga og ríkir mikil undrun á framgangi málsins innan prentiðnaðarins. Tala menn þar um aðför að fyrirtækinu sem mikill óþefur sé af.

Karl M. Karlsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sem hefur starfað þar í nær hálfa öld, var mjög ósáttur með framvinduna, en vildi samt aðspurður hvorki tjá sig um málið né það samkomulag sem gert var í fyrrinótt.

Þarna er um að ræða 48 ára gamalt fyrirtæki í góðum rekstri sem er með 35 manns í vinnu og með um 80% markaðshlutdeild í límmiðaprentun á markaðnum. EBITA mun hafa verið jákvæð um 130 milljónir króna og var velta um 700 milljónir á síðasta ári samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Fyrirtækið sér m.a. um að prenta allar merkingar fyrir lyfjafyrirtækið Actavis, állok fyrir Mjólkursamsöluna, merkingar fyrir Vífilfell og fjölmörg önnur fyrirtæki.

Eftir að ekki höfðu náðst samningar á milli Vörumerkingar og Landsbankans lét Landsbankinn loka húsinu og skipta um aðgangsorð á þjófarvarnakerfi Securitas í húsinu. Þá var starfsmönnum einnig gert ljóst að hringt yrði á lögregluna ef þeir myndu reyna að komast inn í húsið.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .