Skilanefnd Landsdbankans hefur leyst til sín aðra af íbúðum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Gramery Park hóteli í New York. Félagið Mynni ehf. heldur um eignina en það er í 100% eigu Landsbankans.

Fram hefur komið í fréttum í dag að Jón Ásgeir hafi selt íbúðina í New York til Eyjólfs Gunnarssonar. Eyjólfur er framkvæmdastjóri Mynnis og fór til New York vegna yfirtöku skilanefndar. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er unnið að því að koma henni í sölu.

Í frétt Observer , sem aðrir íslenskir netmiðlar hafa vísað til í dag, segir að Eyjólfur sé mögulega eini fjárfestirinn sem enn á peninga í landi Bjarkar. Rétt er að ítreka að skilanefnd Landsbankans var að leysa eignina til sín. Upphaflega keypti Jón Ásgeir tvær samliggjandi íbúðir í byggingunni í New York á árinu 2007. Landsbankinn átti veðrétt í annarri þeirra.