Greiningardeild Landsbankans hefur lækkað verðmat sitt á Actavis. Mæla þeir með sölu á bréfum félagsins. Miðað við 13,3% nafnávöxtunarkröfu og 5% framtíðarvöxt er verðmæti Actavis metið á 1.125 m.evra (90,4 ma.kr. m.v. að evran sé 80 kr.) sem gefur verðmatsgengið 32,4. Niðurstaða síðustu greiningar, dagsett 10. nóvember 2004, gaf gengið 37,1 og verðmætið 103,5 ma.kr. Lokagengi Actavis þann 11. apríl 2005 var 41,6. Miðað við 5% óvissubil á ávöxtunarkröfu er því mælt með sölu á bréfum félagsins.

"Allar helstu forsendur greiningarinnar hafa verið endurskoðaðar, en tveir þættir skýra að mestu lækkun á verðmati. Í fyrsta lagi hefur evran lækkað verulega gagnvart krónunni, eða úr 87,5 í 80,0 og skýrir um 5% lækkun á verðmati. Hefði gengi evru haldist óbreytt í 87,5 væri verðmatsgengið 35,4. Þá hafa forsendur um tekjuvöxt verið lækkaðar lítillega, einkum á þessu ári. Er nú reiknað með um 10% vexti að jafnaði til ársins 2010 í stað 12% áður," segir í tilkynningu Landsbankans.