Landsbankinn gekk í gær frá 300 milljón dollara skuldabréfaútgáfu til fjárfesta í Bandaríkunum. Útgáfan er til þriggja og fimm ára og samræmist stefnu Landsbankans um aukinn fjölbreytileika í erlendri fjármögnun segir í tilkynningu bankans.

Þar kemur ennfremur fram að áhugi bandarískra fjárfesta á útgáfu Landsbankans var einkar ánægjuleg en umsjón með útgáfunni hafði Banc of America Securites LLC og Société Générale var í hlutverki ráðgjafa. Skuldabréfaútgáfan er hluti af reglulegri fjármögnun bankans.

Þessi 300 milljón dollara skuldabréfaútgáfa staðfestir það traust sem Landsbankinn hefur á meðal bandarískra fjárfesta. Fundir með fjárfestum gáfu gott tækifæri til að greina frá undirstöðuatriðum í rekstri Landsbankans og fjárhagslegum styrk.