Aflað hefur verið samþykkis Fjármálaeftirlitsins og Guernsey Financial Services Commission fyrir kaupunum Landsbankans á Cheshire Guernsey Limited og öðrum skilyrðum hefur jafnframt verið fullnægt. Seljandi og kaupandi hafa nú lýst kaupunum lokið. Kaupin voru fjármögnuð með eigin fé Landsbankans segir í frétt bankans.

Hinn 4. ágúst 2006 tilkynnti Landsbanki Íslands hf. (Landsbankinn) að samningar hefðu náðst um kaup á Cheshire Guernsey Limited, banka á eynni Guernsey í Ermasundi. Seljandi var Cheshire Building Society í Bretlandi. Kaupin voru m.a. háð skilyrðum um samþykki eftirlitsaðila á Guernsey og Íslandi.

Nafni bankans verður breytt í Landsbanki Guernsey Limited og er bankinn hluti af samstæðu Landsbankans frá deginum í dag. Þá hafa Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri, Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri og Mark Sismey Durrant framkvæmdarstjóri Heritable Bank tekið sæti í stjórn Landsbanki Guernsey Limited auk lögmanns bankans á Guernsey, John Lewis. Kaupin eru í samræmi við þá stefnu Landsbankans að fjölga stoðum í fjármögnun hans og gefa Landsbankanum færi á að ná skjótri og öruggri fótfestu á markaði fyrir alþjóðleg innlán og leggja þar með góðan grunn að áframhaldandi uppbyggingu alþjóðlegrar innlánastarfsemi segir í frétt bankans.