Um miðjan nóvember síðastliðinn tilkynnti Landsbankinn að samningar hefðu náðst um kaup á írska verðbréfafyrirtækinu Merrion Capital Group Limited (Merrion).

Samkvæmt samningum eignast Landsbankinn í fyrstu 50% af félaginu og mun eignast eftirstandandi 50% hlutafjárins á næstu þremur árum samkvæmt ákvæðum kaupsamnings.

Kaupin voru háð skilyrðum um samþykki eftirlitsaðila í viðeigandi löndum, niðurstöðum áreiðanleikakönnunar og frágangi samninga.

Í tilkynningu Kauphallarinnar kemur fram að öllum skilyrðum hefur nú verið fullnægt, þar með talið að aflað hefur verið samþykkis Fjármálaeftirlitsins og Irish Financial Services Regulatory Authority og er kaupunum lokið.

Halldór J. Krisjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, bankastjórar Landsbankans, telja Merrion mikilvæga viðbót við starfsemi Landsbankans og írska fjármálamarkaðinn vera áhugaverðan kost fyrir Landsbankann vegna stærðar, staðsetningar og eiginleika hans. Styrkur og geta Landsbankans á vel við þær markaðsaðstæður sem þar ríkja.

"Frá því samningar voru undirritaðir höfum við styrkst í þeirri trú að Merrion falli afar vel að starfsemi Landsbankans, m.a. að núverandi bankastarfsemi í London og Luxembourg og starfsemi verðbréfafyrirtækja í eigu Landsbankans í Bretlandi, á meginlandi Evrópu og í New York," segir í sameiginlegri yfirlýsingu bankastjóranna.

"Þegar í stað verður hafist handa við að samþætta starfssemi Merrion við samstæðu Landsbankans. Landsbankinn mun í því sambandi leita leiða til að nýta sterkt auðkenni og stöðu Merrion á írska fjármálamarkaðinum með því að leiða saman sérfræðinga samstæðunnar með það fyrir augum að samþætta vöru- og þjónustuframboð Landsbankans í alþjóðlegu samhengi," segir í sameiginlegri yfirlýsingu Halldórs og Sigurjóns.