Ríkisendurskoðun segir í nýrri skýrslu um eignasölu Landsbankans síðan 2010 að bankinn hefði mátt vita af eignarhlut Borgunar í Visa Europe.

Segir stofnunin að bankinn hafi líklega orðið af töluverðum verðmætum með því að vera með lokað söluferli og hann þurfi að endurreisa orðspor sitt.

Bendir skýrslan á að þó bankinn segist ekki hafa vitað að aðild Borgunar að Visa Europe, þá hafi hún verið forsenda þess að fyrirtækið hafi sinnt færsluhrðingu vegna Visakorta til margra ára.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um áður þá keyptu stjórnendur Borgunar fyrirtækið á verðmati sem gerði ekki ráð fyrir arðinum af sölu Borgunar á þessum eignarhlut.

Gátu boðið upp á þjónustu við Visa

Borgun hafi til að mynda árið 2014 gert tilboð í útgáfu Visakorta fyrir Landsbankann en þar hafi sérstaklega verið tekið fram að fyrirtækið gæti boðið upp á það vörumerki en það hafi krafist aðildar að Visa Europe.

Ríkisendurskoðun fjallar auk sölunnar á Borgun í skýrslu sinni um söluna á Vestia hf, Icelandic Group, Promens hf., Framtakssjóði Íslands slhf. og IEI slhf og Valitor hf, en allar þessar sölur fóru fram í lokuðu ferli.

Segir í skýrslunni að í sumum tilvikum hafi líklega fengist lægra verð fyrir eignarhlutina en vænta mátti miðað við verðmætin sem þeir geymdu.

Hvetur bankinn Fjármála- og efnahagsráðuneytið að taka reglur og eigendastefnur um eignasölu ríkisins og fyrirtækja í þess eigu til endurskoðunar og skerpa á þeim.