Það er víst óhætt að fara að heimfæra upp á íslenska ríkið orð Barkar um Ingjaldsfíflið þess efnis að það „deilist nú heldur víðara“ en hann hugði.

Að minnsta kosti er íslenska ríkið í gegnum Landsbankann skráð fyrir 29,3% hlut í sænsku ferðaskrifstofunni Ticket en auk þess er Kaupþing skráð fyrir liðlega 7% hlut.

Eigandi Sterling og Iceland Express, Northern Travel Holding, átti þangað til síðla sumars 30% hlut í Ticket en þá voru framkvæmd það sem menn eru nú farnir að kalla einherjaviðskipti, þegar Fons keypti hlutinn í Ticket út úr Northern Travel Holding. Fons er, sem kunnugt er, í eigu þeirra Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar og Fons á auk þess 100% í Northern Travel Holding þannig að í reynd voru menn að versla við sjálfa sig.

Svo virðist sem Fons hafi ekki getað haldið í eignarhlutinn í Ticket, að minnsta kosti er Landsbankinn, og þá í reynd íslenska ríkið, skráður fyrir eignarhlutnum í Ticket, að því er kemur fram í frétt á vef Scandinavian Travel Trade Journal. Ticket, sem er ein stærsta ef ekki stærsta ferðaskrifstofan í Svíþjóð og skráð í sænsku kauphöllinni, var rekin með 38 milljóna sænskra króna hagnaði í fyrra en veltan nam um fimm milljörðum sænskra króna, eða um 75 milljörðum íslenskra króna.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .