Miðað við gefnar forsendur, 11,8% nafnávöxtunarkröfu á eigið fé og 4,5% framtíðarvöxt fæst út að virði Bakkavarar sé 524,9 m.punda. Í verðmatinu er miðað við að gengi pundsins sé 112,5 kr. og er virði í íslenskum krónum því 59,1 milljarðar sem samsvarar genginu 28,3 kr. á hlut. Gengi Bakkavarar stóð í 31,9 kr. á hlut í lok dags á föstudag og er því áfram mælt með sölu á bréfum félagsins. Í vel dreifðu eignasafni af íslenskum hlutabréfum er mælt með markaðsvogun á bréf Bakkavarar segir í frétt frá greiningardeild Landsbankans.

Þann 8. mars síðastliðinn tilkynnti Bakkavör að gert hefði verið bindandi kauptilboð í breska matvælafyrirtækið Geest. Hafði þá farið fram áreiðanleikakönnun frá því samkomulag náðist um verð við stjórnendur Geest rétt fyrir jólin. Engin breyting varð á tilboði Bakkavarar í kjölfar áreiðanleikakönnunarinnar en það hljóðar upp á 655 pens á hlut auk 7 pensa arðgreiðslu á hlut.