Landsbankinn mælir ekki með kaupum í Skiptum, móðurfélagi Símans, en útboði þeirra lýkur í dag.

Verðmat Landsbankans á Skiptum hljóðar upp á 4,46 krónur á hlut og er því töluvert lægra en það verðbil sem fjárfestum býðst að kaupa hluti á í útboðinu nú.

Greiningardeild Landsbankans bendir á að gott sjóðstreymi, hagfelldur endurgreiðsluferill skulda og skýr framtíðarsýn stjórnenda mynda traustar stoðir Skipta hf.

„Útboðsgengið 6,64-8,10 er hins vegar langt yfir því sem reksturinn getur með góðu móti staðið undir," segir í skýrslu Landsbankans.

Landsbankinn bendir einnig á að í samanburði við verðlagningu evrópskra fjarskiptafélaga sé útboðsgengi Skipta sömuleiðis of hátt. EV/EBITDA margfaldari Skipta er 9,6, þegar miðað er við neðri mörk útboðsgengisins, en meðal hlutfall samanburðarfélaganna er 6,7. Net Debt/EBITDA margfaldari Skipta er auk þess sá hæsti meðal samanburðarfélaganna, sem ætti að gefa samkeppnisaðilunum ákveðið forskot í útrás til austurs. Við mælum ekki með fjárfestar taki þátt í útboðinu, segir í skýrslu Landsbankans.