Greiningardeild Landsbankans hefur sent frá sér nýtt verðmat á Atorku Group þar sem mælt er með kaupum á bréfum félagsins. Þeir meta virði Atorku Group á 6,79 kr. á hlut og vænt verð eftir 12 mánuði 7,72.

Verðmatið gefur V/I hlutfallið 0,93 (e. price to book). Lokagengi bréfa Atorku Group þann 30.11.2006 var 6,30 á hlut og mælir því greiningardeild Landsbankans með að fjárfestar kaupi bréf í félaginu og yfirvogi þau í vel dreifðu eignasafni sem tekur mið af íslenska markaðinum.

Greiningardeild Landsbanakns bendir á að Atorka hefur vaxið gríðarlega á skömmum tíma. Breytingar hafa verið gerðar á fjárfestingarstefnu. Í stað þess að fást við umbreytingarverkefni er áhersla nú lögð á fjárfestingar í fyrirtækjum með gott stjórnendateymi og góða möguleika á innri vexti og/eða aukinni hagkvæmni t.d. með sameiningum við önnur fyrirtæki eða uppskiptum. Atorka stefnir að því að styðja við stjórnendateymi þeirra fyrirtækja sem fjárfest er í og veita þann fjárhagslega stuðning sem þarf til að efla starfsemi félaganna enn frekar.

"Viðskipta­módel Atorku er mjög áhugavert og möguleikar miklir. Helsta áhættan sem við sjáum í rekstri félagsins á þessum tímapunkti er takmörkuð reynsla í því að ljúka fyrirtækjaverkefnum og þar með innleysa hagnað sem þegar hefur verið bókfærður," segir í greiningu Landsbankans.