Greiningardeild Landsbankans mælir með að fjárfestar kaupi bréf í Össuri og yfirvogi í vel dreifðu safni. Hún metur gengi félagsins á 114,7 en það er 106,5 krónur á hlut, þegar þetta er skrifað, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

"Þrátt fyrir hökt framan af ári teljum við að þær aðgerir sem félagið hefur farið í muni skila árangri á næstu misserum. Félagið er með mjög öfluga þróunarstarfsemi sem sífellt kemur með mjög frambærilegar vörur á markað," segir greiningardeildin.


Tekjur Össurar á öðrum ársfjórðungi voru lítillega yfir væntingum greiningardeildarinnar en framlegðin var vel umfram væntingar. "Innri vöxtur Össurar á tímabilinu nam 6% í staðbundinni mynt en 8% í bandaríkjadal. Góður vöxtur var í stoðtækjum en sala á spelkum og stuðningsvörum leið fyrir endurskipulagninguna í Bandaríkjunum," segir greiningardeildin.