Tekjuvöxtur Bakkavör Group á þriðja ársfjórðungi nam 21% miðað við sama ársfjórðung síðasta árs. Þetta var heldur meiri vöxtur en Greiningardeild Landsbankans átti von á (18,7%) en ríflega 28% söluaukning á tilbúnum réttum er nefnd sem megin skýring vaxtarins. Mikil söluaukning tilbúinna rétta hafði hins vegar neikvæð áhrif á EBITDA framlegð félagsins enda er framlegð af þessum vöruflokki lægri en t.d. af ídýfum þar sem söluvöxtur var tæplega 10% á milli ára.

Miðað við 10,75% nafnávöxtunarkröfu og 4,5% framtíðarvöxt metur Greiningardeild Landsbankans Bakkavör á 47,4 ma.kr. Þetta samsvarar verðmatsgenginu 22,7 kr. á hlut. Lokagengi félagsins á hlutabréfamarkaði í gær var 24,5 og er því mælt með sölu á bréfum félagsins.

Verðmatið hefur hækkað um 6,5% frá síðustu útgáfu en aðalástæður þess eru hækkun á gengi Geest, lægri ávöxtunarkrafa og breytingar á framlegðarforsendum eins og kemur fram í Vegvísi Landsbankans.