Um fimm milljarðar króna af skuldum Reykjanesbæjareru vegna ábyrgðar á lántökum bæjarins vegna uppbyggingar á stórskipahöfn í Helguvík. Höfnin hefur ekki getað staðið við skuldbindingar sínar vegna lítilla rekstrartekna og lán hennar hafa gjaldfallið. Viðræður hafa staðið yfir við kröfuhafa um lausn á vandamálinu um nokkurt skeið en nýverið hafnaði Landsbankinn, einn kröfuhafanna, að samþykkja frestun á greiðslun Reykjaneshafnar.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir í viðtali við Viðskiptablaðið að nýr fundur verði haldinn með kröfuhöfum 10. desember næstkomandi og hann vonast að málin muni skýrast í kjölfarið. „Kröfuhöfum hefur verið sýnt fram á hvernig tekjur hafnarinnar muni umbreytast á nokkrum árum. Þær framkvæmdir sem ráðist hefur verið í eru til að fylgja eftir samningum sem gerðir hafa verið vegna ál- og kísilvers. Þegar horft er til framtíðar þá munu kröfuhafarnir því fá fjármagn sitt örugglega til baka. Það tekur hins vegar tíma og við höfum beðið þessa 20 kröfuhafa um að standa með okkur í þessari uppbyggingu. Við höfum beðið þá um að hafa trú á því að í Helguvík muni rísa álver og kísilver.

Lánasjóður sveitarfélaga, einn kröfuhafanna, hefur lýst því yfir að honum sé óheimilt samkvæmt lögum að samþykkja frestun. 18 af hinum 19 kröfuhöfunum voru hins vegar búnir að samþykkja frestun, en Landsbankinn, sem á 20 milljón króna kröfu, hefur enn ekki viljað gera það.

„Ég geri ráð fyrir að á næsta fundi verði farið aftur yfir málið og reynt að finna lausnir. Krafa Landsbankans er mjög lítill hluti af þessum skuldum og mér þykir það mjög leitt að ríkisbankinn hafi ekki enn séð sér fært að standa með okkur í þessu verkefni,“ segir Árni.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .