Landsbankinn (NBI) hefur ákveðið að lækka vexti sína í kjölfar stýrivaxtalækkunar Seðlabankans í gær en áður höfðu aðrir ríkisbankar, Nýi Kaupþing og Íslandsbanki lækkað vexti sína.

Eins og kunnugt er lækkaði Seðlabankinn stýrivexti sína um 2,5 prósentustig í gær en í tilkynningu frá Landsbankanum kemur þó fram að bankinn lækkar vexti sína nokkuð umfram lækkun Seðlabankans.

Þannig lækka vextir óverðtryggðra útlána um 3,5 prósentustig, vextir óverðtryggðra innlána lækka um 1,0 til 3,5 prósentustig og þá lækkar bankinn einnig vexti verðtryggðra  inn- og útlána um 0,5 prósentustig. Lækkunin tekur gildi frá og með mánudeginum 11. maí n.k.

„Landsbankinn lýsir vonbrigðum sínum með vaxtalækkun Seðlabankans og skorar á bankann að hraða vaxtalækkunarferlinu enn frekar,“ segir í tilkynningunni.

„Landsbankinn lækkaði vexti umtalsvert meira en Seðlabankinn í vaxtabreytingum bankans í mars og apríl auk þess sem Landsbankinn lækkaði vexti í lok apríl, einn banka, um 2,0 prósentustig.“

Byr lækkar einnig vexti

Þá tilkynnti Byr sparisjóður í dag að bankinn mun lækka innláns- og útlánsvexti í kjölfar stýrivaxtalækkunar Seðlabankans og tekur breytingin einnig gildi frá og með mánudeginum 11. maí.

Óverðtryggðir útlánsvextir lækka mest eða allt að 4,0% og er það allt að 150 punkta lækkun umfram stýrivaxtalækkunina sem ákveðin var í gær.

Verðtryggðir útlánsvextir Byrs lækka um allt að 0,5%. Óverðtryggðir innlánavextir Byrs lækka um allt að 3,5% og verðtryggðir innlánavextir lækka á flestum innlánsformum um 0,1-0,2%.