Slitastjórn LBI (gamla Landsbanka Íslands hf.) hefur samþykkt beiðni Landsbankans um viðræður um breytingar á þeim skuldabréfum sem hann skuldar LBI. Skuldabréfin eiga að koma til greiðslu á árunum 2014 til 2018 miðað við núverandi skilmála.

Í ljósi þess að endurgreiðslutími þessara skuldabréfa er skammur þegar tekið er tillit til stöðu þjóðarbúsins og lánamarkaða óskaði Landsbankinn í maí síðast liðinn eftir viðræðum við LBI um að breyta skilmálum þessara lána.

Í tilkynningu sem birtist á vef Landsbankans í dag segir að bankinn muni ekki gefa frekari upplýsingar um gang mála meðan viðræður eru í gangi milli Landsbankans og slitastjórnar LBI nema um það verði samkomulag milli aðila.