Landsbankinn bókfærði 30,6 milljarða kröfu á ríkissjóð í ársreikningi síðasta árs vegna yfirtökunnar á SpKef sparisjóði í fyrra. Þetta kemur fram í ársreikningi bankans og Fréttablaðið greinir frá í dag.

Óljóst er hins vegar hver raunveruleg krafa Landsbankans er á ríkissjóð vegna yfirtökunnar, þar sem úrskurðanefnd um málið, sem var skipuð til þess að skera úr um verðmæti eigna SpKef, hefur ekki skilað niðurstöðum. Ríkissjóður telur upphæðina nema um 11 milljörðum króna og því munar um 20 milljörðum á mati ríkisins og Landsbankans.

Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins um málið segir bankinn að „ef niðurstaða úrskurðarnefndarinnar verður sú að ríkissjóður á að borga minna en þessi krafa er bókuð á, þá er hugsanlegt að framkvæma þurfi virðisrýrnun.[…] Á móti virðisrýrnun kröfunnar á ríkissjóð, kæmi þá væntanlega virðisaukning lánasafnsins, þar sem það myndi þá teljast verðmætara en við töldum það vera."

Landsbankinn tók starfsemi SpKef yfir í mars 2011, þegar innlán og eignir voru færðar yfir í Landsbankann. Síðan hefur komið í ljós að eignirnar voru mun lakari en talið var. Íslenska ríkið, sem tryggir öll innlán vegna yfirlýsingar frá efnahagshruni, telur að það eigi að greiða 11,1 milljarð króna með innlánunum, en Landsbankinn telur upphæðina hins vegar vera um 30,6 milljarðar.