Landsbanki Íslands (gamli Landsbankinn) og Straumur-Burðarás fjárfestingabanki hf. (Straumur) hafa gengið frá samkomulagi um uppgjör krafna í milli bankanna þ.m.t. kröfum vegna peningamarkaðslína, lána, afleiðustaða, skuldabréfa og ábyrgða.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Straum en uppgjörið felur sér í skuldajöfnun og yfirfærslur eigna frá Straumi til Landsbankans.

„Samningurinn hefur ekki efnisleg áhrif á rekstrarreikning Straums og engin áhrif á lausafjárstöðu bankans,“ segir í tilkynningunni.

„Hins vegar minnka heildareignir Straums um u.þ.b. 200 milljónir Evra og hækkar eiginfjárhlutfall (CAD) um tæp 2%.“

Þá kemur fram að samningur þessi sé í samræmi við stefnu Straums um að draga úr stærð efnahagsreiknings bankans og heildaráhættu í rekstri.