Landsbankinn hefur opnað skrifstofu í Hong Kong, sem er fyrsta starfsstöð bankans í Asíu. Haldið var upp á opnunina í gær, en bankinn áformar að hefja starfsemi víðar á þessu svæði og litið er á skrifstofuna sem stökkpall inn á markaðinn.

Skrifstofan í Hong Kong er með þjónustu við fyrirtæki og mun fyrst í stað einbeita sér að útlánastarfsemi og vörubirgðalánum og þar verður meðal annars starfandi sjávarútvegsteymi. Skrifstofunni stýrir Björn Ársæll Pétursson og fyrst í stað verða þar fimm starfsmenn með fast aðsetur.