Landbanki Íslands hefur fengið leyfi frá fjármálaeftirliti Kanada til að opna söluskrifstofu í Kanada. Ólafur Þorsteinsson mun stýra söluskrifstofunni en Ólafur, sem búsettur hefur verið í Kanada síðastliðin sjö ár, hefur viðamikla reynslu á sviði alþjóðlegra viðskipta sem einkum tengist sjárvarútvegi segir í tilkynningu bankans.

Í tilkynningunni kemur fram að Landsbankinn telur áhugaverð tækifæri felast í hinu ört vaxandi kanadíska hagkerfi og að bankinn sé vel í stakk búinn til að bjóða sérhæfða þjónustu sína, einkum á sviði sjárvarútvegs til kanadískra viðskiptavina við austurströnd Kanada. Bankinn hefur þegar orðið var við verulegan áhuga frá mögulegum kanadískum viðskiptavinum segir í tilkynningunni.

Aðalhlutverk söluskrifstofunar verður að kynna vöru- og þjónustuframboð bankans innan Kanada, annast samskipti milli kanadískra viðskiptavina og fyrirtækjasviðs bankans á Íslandi og samhliða því vera andlit bankans innan Kanada. Skrifstofan mun jafnframt annast greiningarvinnu á öðrum möguleikum Landsbankans til aukinnar þjónustu innan Kanada.

Skrifstofan verður staðsett á Prince Street númer 5112 í Halifax, Nova Scotia.