Landsbanki Íslands er meðal þeirra banka sem hafa verið orðaðir við hugsanleg kaup á írska fjármálafyrirtækinu Irish Nationwide Building Society, en stjórnendur fyrirtækisins hafa staðfest að það sé til sölu. Reiknað er með að kaupverðið geti verið á bilinu 1-1,5 milljarðar breskra punda, sem samsvarar um 132-197 milljarðar íslenskra króna.

Sérfræðingar á fjármálamarkaði telja þó að Danske Bank, sem keypti National Irish Bank og Northern Bank á Írlandi af ástralska bankanum National Australian Bank fyrir tvo milljarða evra í fyrra, sé einna líklegastur til að kaupa Irish Nationwide. Sérfræðingarnir benda á að samlegðaráhrif í tengslum við kaupin geti orðið veruleg.

Ástæðan fyrir því að Landsbankinn er orðaður við Irish Nationwide nú er sú að bankinn keypti ráðandi hlut í írska verðbréfafyrirtækinu Merrion Capital í fyrra. Heildarverðmatið á Merrion Capital nam 55,3 milljónum evra við kaupin, sem samsvarar tæpum fimm milljörðum króna.

Hins vegar hefur Landsbankinn sagt að bankinn ætli sér ekki að taka þátt í stórum yfirtökum á næstunni og væru kaup á Irish Nationwide mótsögn við stefnu bankans á næstu mánuðum, en bankinn ætlar sér að samþætta reksturinn og ná fram auknum samlegðaráhrifum í rekstri. Landsbankinn keypti tvo verðbréfafyrirtækið á síðasta ári, auk Merrion Capital. Bankinn keypti breska verðbréfafyrirtækið Teather & Greenwood fyrir 43 milljónir punda og evrópska verðbréfafyrirtækið, sem þá var verðmetið á 90 milljónir evra.

Skoski bankinn Halifax Bank of Scotland, sem hefur unnið mikið með Kaupþingi banka og Baugi í Bretlandi, hefur einnig verið orðaður við Irish Nationwide, ásamt hollenska bankanum Rabobank og Royal Bank of Scotland. Væntanlega sölu á Irish Nationwide má rekja til lagabreytinga á Írlandi, sem leyfa að húsnæðislánafyrirtækjum (e. building society) verði breitt í hlutafélagabanka. Húsnæðislánafyrirtæki, eins og Irish Nationwide, hafa lagt mikla áherslu á húsnæðislán til einstaklinga og fyrirtækja en sinna einnig hlutverki sparisjóða.

Stjórnandi Irish Nationwide, Michael Fingleton, mun efnast vel af af sölunni verður. Áætlað er að stjórnendur geti átt von á að fá um 200 milljónir evra (18 milljarða króna) fyrir samanlagðan 15% hlut sinn í félaginu, og þar af mun Fingleton fá um 15 milljónir evra.