Hildur Friðleifsdóttir hefur verið ráðin umboðsmaður fyrirtækja hjá Landsbankanum. Hún er núverandi útibússtjóri Landsbankans í Austurstræti.

Umboðsmanni fyrirtækja er ætlað að gegna svipuðu hlutverki gagnvart fyrirtækjum og umboðsmaður viðskiptavina gegnir gagnvart einstaklingum sem eru í viðskiptum við Landsbankann. Staðan var auglýst til umsóknar í febrúar og nú hefur það ferli skilað ráðningu Hildar í hana.

Úr tilkynningu Landsbankans vegna ráðningarinnar:

„Ráðning umboðsmanns fyrirtækja var eitt af þeim atriðum sem sett voru fram á aðgerðalista bankans fyrir fyrstu 6 mánuði ársins sem birtur var í febrúar.  Þar var sagt að Landsbankinn myndi efla þjónustu við viðskiptavini sem telja á sig hallað í viðskiptum við bankann.  Viðskiptavinir sem telja sig ekki hafa fengið sanngjarna úrlausn sinna mála, geta leitað til umboðsmanns og hlutverk hans er að skoða mál sem honum berast af hlutleysi og leita úrlausna af sanngirni.

Hildur mun taka við nýju starfi 1. apríl næstkomandi. Staða útibússtjóra í Austurstræti 11, hefur verið auglýst laus til umsóknar.

Hildur hefur verið útibússtjóri í Austurstræti 11 frá því í desember 2008 en var áður forstöðumaður Lögfræðiinnheimtu Landsbankans. Hildur hefur starfað hjá Landsbankanum frá árinu 2000 með hléum. Hún er lögfræðingur að mennt og með héraðsdómslögmannsréttindi.“