Landsbankinn hefur ráðið til sín níu starfsmenn frá finnska bankanum FIM Group Corporation sem er í eigu Glitnis. Meðal þeirra sem fara yfir eru fjórir starfsmenn greiningardeildar FIM og fimm miðlarar hjá finnska bankanum. Í samtali við Pétur Óskarsson, talsmann Glitnis, í Viðskiptablaðinu í dag hættu starfsmennirnir allir á einu bretti í upphafi vikunnar.

Pétur sagði að þetta hefði ekki stórvægileg áhrif á starfsemi þeirra. "Menn koma og fara eins og gengur. Allir okkar lykilstarfsmenn eru eftir og við höfum ekki misst einn einasta viðskiptavin og við munum halda áfram að geta þjónustað þá sem hingað til," sagði Pétur. Það kom fram hjá honum að hann taldi ekki vandamál að fylla í þessar stöður enda væri FIM eftirsóttur vinnustaður og var á síðasta ári í öðru sæti í könnun um vinsælustu vinnustaði Finnlands.

Fréttir sem hafa verið af málinu í finnskum fjölmiðlum hafa vakið athygli þar sem íslenskir bankar koma að málinu báðum megin frá. "Þetta hefur vakið nokkra athygli í Finnlandi og ýtt undir sögusagnir um að sum íslensk fyrirtæki hafi sérkennilegt verðskyn," sagði Pétur.

Yfirtökutilboði Glitnis banka í alla útgefna og útistandandi hluti og kauprétti í FIM Group lauk þann 16. maí síðastliðinn og er heildarhlutafjáreign Glitnis í FIM nú 98.28%. Glitnir tilkynnti þann 5. febrúar að bankinn hefði samið um kaup á 68,1% af hlutafé FIM sem var í eigu 11 stærstu hluthafa félagsins. Eigendur yfir 97% hluta FIM óskuðu eftir því að fá helming kaupverðs greiddan með bréfum í Glitni og helming með reiðufé. FIM varð hluti af samstæðureikningi bankans frá og með 1. apríl 2007.

Með kaupunum á FIM er ætlun Glitnis að byggja upp nýja tekjulind, alþjóðlega eignastýringu, sem Jan Forsbom mun stýra. Um leið er ætlunin að bjóða uppá breiðara úrval sjóða til viðskiptavina bankans og styrkja fyrirtækjaráðgjöf og norræn verðbréfaviðskipti enn frekar með sterkri stöðu í Finnlandi. Stjórn FIM er skipuð Bjarna Ármannssyni, Frank Ove Reite, Sverrir Erni Þorvaldssyni, Niklas Geust og Vesa Honkanen.