Lausafjáreignir Landsbankans í erlendri mynt hafa aukist úr 70 milljörðum króna í 145 eða um 107% á einu ári. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að eignirnar eru nú orðnar álíka miklar og bankinn fyrirframgreiddi 73 milljarða í gjaldeyri inn á skuld sína við gamla Landsbankann (LBI) um mitt ár 2013.

Blaðið hefur eftir greinendum á markaði að þessi mikla gjaldeyrissöfnun bankans komi til af nauðsyni vegna 300 milljarða erlendra skulda við kröfuhafa LBI og ráði hvað mestu um að gengi krónunnar hafi lítið sem ekkert hækkað síðustu mánuði þrátt fyrir aukinn straum ferðamanna. Bankinn hefur þó ekki verið virkur kaupandi að gjaldeyri á millibankamarkaði en stærstur hluti söfnunarinnar skýrist af gjaldeyrisinnflæði sem bankinn hefur tekið til sín, m.a. gjaldeyristekjur af 189 milljarða lánasafni bankans. Innflæðið hefði að öðrum kosti skilað sér í meira mæli inn á markaðinn með tilheyrandi gengisstyrkingu krónunnar, að sögn Morgunblaðsins.