*

laugardagur, 25. janúar 2020
Innlent 7. júlí 2017 16:36

Landsbankinn samþykkir sekt

Landsbankinn hefur samþykkt að greiða 11,8 milljónir króna í sekt fyrir brot á lögum um verðbréfaviðskipti, samkvæmt samkomulagi við Fjármálaeftirlitið.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Landsbankinn hefur samþykkt að greiða 11,8 milljónir króna í sekt fyrir brot á lögum um verðbréfaviðskipti, þegar bankinn tilkynnti ekki um verulegan hlut á atkvæðisrétti sínum í olíufélaginu N1 hf. innan tímafrests. Bankinn hefur því viðurkennt brot sitt samkvæmt samkomulagi við Fjármálaeftirlitið frá 22. maí síðastliðnum. Þetta kemur fram á vef eftirlitsins.

Brot bankans felst í því að þegar breyting var gerð á útgefnu hlutafé N1, sem Landsbankinn átti hluti í, láðist að færa breytinguna inn í kerfi bankans. Landsbankinn átti viðskipti með hluti í N1 þann 11. janúar 2016 án þess að taka mið af þeim breytingum sem urðu á útgefnu hlutafé N1 í desember. Landsbankinn sendi þá tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins og regluvarðar N1 þann 26. janúar 2016 þegar honum varð ljóst að flöggunarskylda hefði stofnast með viðskiptunum 11. janúar, þar sem bankinn fór yfir 5% eignarhlut í N1. Landsbankinn óskaði eftir að ljúka málinu með sátt.