Grein The Sunday Times, þar sem breskir sparifjáreigendur eru hvattir til að takmarka innlán sín, jafnt í íslenska sem innlenda banka, dæma sig sjálf, að mati Tinnu Jónsdóttur Molphy, fjárfestatengils hjá Landsbankanum [ LAIS ]. Hún segir að allur samanburður við Northern Rock-bankann standist engan veginn. Þeir punktar sem fram koma í greininni um Landsbankann séu þó í raun mjög jákvæðir. Ríkistryggð innlánatrygging í Bretlandi gildir upp að 35 þúsund pundum og hvetur blaðið í grein sinni sparifjáreigendur til að takmarka innlán sín við þá fjárhæð hjá öllum bönkum, ekki einvörðungu þeim íslensku. Blaðið segir að Moody's hafi sagt í síðasta mánuði að staða íslensku bankanna sé viðkvæm.

Sigurjón Árnason, bankastjóri Landsbankans, segir í viðtali við visir.is að þrátt fyrir neikvæðar fréttir í garð innlánareiknings Landsbankans í Bretlandi, Icesave, hafi 1.100 nýir innlánsreikningar verið stofnaðir á sunnudainn var. Bankanum hafi borist um 40 fyrirspurnir vegna fjölmiðlaumfjöllunarinnar.

Frá áramótum hafa 30-40 þúsund nýir reikningseigendur bæst í hópinn hjá Icesave og frá því Icesave var stofnað hafa 175 þúsund Bretar opnað þar reikninga.

Reuters-fréttastofan fylgir málinu eftir í gær og greinir frá því að gengi íslensku krónunnar hafi fallið í gær og hún aldrei staðið lægra gagnvart evru. Þá hafi orðið lækkun í Kauphöll Íslands og gengi hlutabréfa ekki verið lægra síðan seint á árinu 2005. Fréttastofan segir að það hafi verið grein Sunday Times sem hafi valdið óróa meðal fólks þótt í raun hafi ekkert nýtt verið þar að finna.

Þá hafði Reuter einnig eftir Jónasi Sigurgeirssyni hjá Kaupþingi [ KAUP ]að staða Kaupþings væri mjög góð. Enn fremur kom fram hjá Hjördísi Ísabellu Kvaran hjá Landsbanka Íslands að þrátt fyrir neikvæða umfjöllun hefði það ekki haft mikil áhrif á Icesave-innlánsreikning bankans. Þvert á móti væri um aukningu að ræða, öfugt við það sem ætla mætti eftir umfjöllun blaðsins.

Fram kom í Reuters-fréttinni að innlánsreikningar bæði Landsbankans og Kaupþings í Bretlandi hefðu notið mikilla vinsælda meðal sparifjáreigenda þar í landi.