Lausafjárstaða Landsbankans er sterk og endurgreiðsluferill bankans léttur eða aðeins 855 milljónir evra á tímabilinu 2H08 – 1H09. Þann 29. september var lausafjárstaða bankans 8,0 milljarðar evra, samanborið við 7,8 milljarða evra þann 30. júní, segir í fréttatilkynningu frá bankanum.

Jákvæðar aðgerðir Ríkisstjórnarinnar nú í morgun undirstrika staðfestu stjórnvalda til að styrkja íslenska fjármálageirann og gera hann betur í stakk búinn að takast á við þá markaðsröskun sem nú á sér stað á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, segir í fréttatilkynningunni.

„Skjótar og ákveðnar aðgerðir yfirvalda í dag bera vott um skýran vilja til þess að styrkja stoðir íslensks efnahagslífs og fjármálakerfis. Við teljum aðgerðina jákvæða og til þess fallna að styrkja efnahagskerfið í heild sinni auk þess sem þær munu leiða til tækifæra á frekari sameiningum hérlendis.

Nú er rúmt ár síðan áhrifa lánsfjárkreppu fór að gæta á fjármálamörkuðum heimsins. Atburðir síðustu vikna, sem hafa haft áhrif á stærstu fjármálafyrirtæki heims, marka án efa spor í söguna og munu að líkindum breyta fjármálaheiminum varanlega,“ segir í fréttatilkynningunni.

Landsbankinn hefur valið sér viðskiptamódel sem er blanda af viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi, þ.e. alhliða banki sem byggir á traustri stöðu á viðskiptabankamarkaði bæði á einstakling- og fyrirtækjamarkaði en með eignastýringu og fjárfestingarbankastarfsemi sem mikilvægar stoðir í heildarstarseminni. „Hátt hlutfall innlána á móti útlánum 63% er bankanum einnig mikill styrkur. Þetta er viðskiptamódel sem markaðsaðilar eru sammála um að geti staðist það mótlæti sem fjármálafyrirtæki glíma nú við,“ segir í fréttatilkynningunni.