Útreikningar fréttastofunnar Thomson Reuters (TR) um meinta erfiðleika Íslands á alþjóðlegum lánamörkuðum og umfjöllun um þróun ávöxtunarkröfu á íslenskum ríkisskuldabréfum standast ekki skoðun, að mati hagfræðideildar Landsbankans.

Fram kom í umfjöllun TR í síðustu viku að vextir á 5 ára skuldabréfi ríkissjóðs hafi hækkað úr 4,1% í 6,4% síðan ný ríkisstjórn tók við. Þetta er ekki rétt að sögn hagfræðideildarinnar sem bendir á í netritinu Vikubyrjun að við nánari athugun komi í ljós að blaðamaður TR hafi verið að fjalla um þróun ávöxtunarkröfu á ríkisskuldabréfum í krónum en ekki erlendri mynt

Í Vikubyrjun segir:

„Viðmiðunarbréf upplýsingakerfis Thomson Reuters breytist í mars, þannig að höfundur fréttarinnar er að bera saman ávöxtunarkröfu mismunandi bréfa með mismunandi gjalddaga, sem er engan vegin rétt aðferðafræði. Einnig virðist sem TR noti dagsetningu í byrjun mars sem fyrri viðmiðunarpunkt, tveimur mánuðum áður en núverandi ríkisstjórn tók við, en miklar sviptingar áttu sér stað rétt í kjölfarið af ástæðum sem hafa lítið með efni fréttarinnar að gera. Að lokum verður það að teljast mjög sérstakt að ræða um ávöxtunarkröfu skuldabréfa í íslenskum krónum sem er læst bak við gjaldeyrishöft í frétt um aðgengi Íslands að erlendum lánamörkuðum, í stað þess að skoða kröfu á erlendu skuldabréfi ríkissjóðs.“