Hinn 21. desember síðastliðinn gerðu Fjármálaeftirlitið og Landsbankinn með sér samkomulag um að ljúka með sátt máli vegna brota á 1. mgr. 78. gr. og 1. mgr. 86. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Þetta kemur fram í sátt bankans við FME .

Meginatriði samkomulagsins fela það í sér að Landsbankinn viðurkennir að hafa í tveimur tilvikum brotið gegn 1. mgr. 78. gr. laga um verðbréfaviðskipti, með því að hafa láðst að tilkynna um breytingu á verulegum hlut atkvæðisréttar í Heimavöllum hf. Einnig viðurkennir bankinn að hafa í einu tilviki brotið gegn 1. mgr. 86. gr. sömu laga, með því að hafa láðst að tilkynna um breytingu á verulegum hlut atkvæðisréttar í Heimavöllum hf. innan lögbundins tímafrests.

Landsbankinn fellst samkvæmt sáttinni á að greiða sekt að fjárhæð 15.000.000 krónur. Landsbankinn staðfestir jafnframt í sáttinni að hann hafi upplýst að fullu um málsatvik sem samkomulagið varðar. Þá hafi bankinn gripið til ráðstafana til að stuðla að því að atvik sem þessi eigi sér ekki stað á ný.