Landsbankinn ætlar að bjóða til sölu allt að 75% hlut í fasteignafélaginu Reginn í hlutafjárútboði sem fer fram á mánudag og þriðjudag í þarnæstu viku (18. og 19. júní næstkomandi). Stefnt er að skráningu Regins í Kauphöllina í kjölfar útboðsins.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsbankanum að verðbil í útboðinu verði á bilinu 8,1 til 11,9 krónur á hlut. Þetta samsvarar því að markaðsverðmæti alls hlutafjár Regins sé á bilinu 10,5 til 15,5 milljarðar króna. Samkvæmt fyrri áætlun var áætlað að markaðsverðmætið yrði á bilinu 14,2 til 18,3 milljarðar króna.

Þá kemur fram í tilkynningu frá bankanum að Landsbankinn ætli að halda eftir 25% í félaginu og skuldbinda sig til að selja hann ekki í 10 mánuði eftir skráningu í Kauphöll.

Fyrirkomulag útboðsins

Útboðið er tvískipt. Samkvæmt því verður 48,75% hlutur boðinn til sölu. Lágmarkaðstilboð á að hljóða upp á upp á 50 milljónir króna að lágmarki. Í áskrift verður boðinn til sölu 26,25% hlutur og geta lágmarkstilboð í þeim hluta tilboðsins numið á bilinu 100 þúsund og upp að rétt tæpum 50 milljónum króna.

Landsbankinn mun falla frá útboðinu ef eftirspurn í útboðinu verður ekki nægjanleg til að ná megin markmiði útboðsins varðandi dreifingu hlutafjár eða ef ekki næst að selja yfir 50% af heildarhlutafé félagsins.