Óstofnað einkahlutafélag, sem verður í eigu félaganna Harðbakur ehf., Jarðefnaiðnaður ehf., Suðurverk hf. og Sigurbjörns Runólfssonar, hefur keypt allt hlutafé í Björgun ehf. af Hömlum, dótturfélagi Landsbankans. Kaupverð er 306 milljónir króna.

Landsbankinn sendi út tilkynningu um söluna í dag. Þar kemur fram að markmið nýrra eigenda er að halda áfram óbreyttum rekstri félagsins.

„Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans hafði umsjón með söluferlinu sem hófst þann 5.maí 2011. Söluferlið var opið öllum áhugasömum fjárfestum sem stóðust hæfismat og gátu sýnt fram á fjárfestingargetu að upphæð 400 milljónir króna.  Margir sýndu fyrirtækinu áhuga og fengu 13 aðilar aðgang að gögnum um félagið. Söluferli Björgunar ehf. er í fullu samræmi við nýja stefnu Landsbankans um sölu á fullnustueignum. Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins,“ segir í tilkynningunni. ALM Fjármálaráðgjöf veitti nýjum eigendum ráðgjöf í söluferlinu.

Þá segir ennfremur:

Björgun var stofnað 11. febrúar árið 1952. Félagið er leiðandi í vinnslu steinefna til hverskonar mannvirkjagerðar á Íslandi. Björgun hefur um árabil stundað verktöku af ýmsu tagi, svo sem hafnardýpkun, uppdælingu á efni til landfyllinga og uppdælingu á efni til frekari nýtingar á vegum annarra. Höfuðstöðvar Björgunar eru við Sævarhöfða í Reykjavík.

Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans segir: " Við erum ánægð að söluferlið gekk hratt og vel fyrir sig og að félagið er komið í traustar hendur ".

Nýir eigendur Björgunar ehf.: " Fjárfestar eru ánægðir með kaupin á félaginu. Þrátt fyrir erfitt efnahagsástand í atvinnugreininni þá horfum við björtum augum til framtíðar ".