Landsbankinn hefur selt eignir og hlutabréf fyrir 14,5 milljarða króna það sem af er þessu ári. Að auki hefur bankinn fengið tilboð í 49,9% hlut sinn í Promens að fjárhæð 18,2 milljarða, og gangi salan eftir fer eignasalan í tæpa 33 milljarða króna. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir í samtali við Morgunblaðið að eignasalan styrki fjárhag bankans. „Eiginfjárstaðan batnar jafnt og þétt og eignasala hefur verið eðlilegur og jákvæður þáttur í uppbyggingu bankans,“ segir Steinþór. Einnig er bankinn með til skoðunar sölu á 38% hlut sínum í Valitor og má áætla að verðmæti hlutarins hlaupi á milljörðum.