Landsbankinn hf. hefur selt 9,2% hlut sinn í fjárfestingafélaginu Eyri Invest í opnu söluferli samkvæmt tilkynningu frá bankanum. Eyrir Invest er meðal annars stærsti hluthafi Marel.

Landsbankinn auglýsti opið söluferli á allt að 12,1% eignarhlut sínum í  Eyri Invest hf. þann 6. nóvember sl. en bankinn átti fyrir söluferlið 22% hlut í félaginu.

Söluferlið fór fram í samræmi við stefnu Landsbankans um sölu eigna og var öllum opið sem teljast vera hæfir fjárfestar skv. skilgreiningu 9. tl. 43. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Lágmarksgengi sem fjárfestar gátu boðið í söluferlinu var 41,80 krónur á hvern hlut í Eyri Invest.

Landsbankinn tók fjórum tilboðum af fimm sem bárust í 91.509.035 hluti í Eyri Invest. Allir hlutirnir voru seldir á sama sölugengi sem var 42,845 krónur á hvern hlut. Tilboði sem var undir sölugengi var hafnað. Söluandvirði hlutanna nemur um 3,9 milljörðum króna.