Landsbanki Íslands hefur átt í yfirtökuviðræðum við franska verðbréfabankann Kepler Equities um að kaupa 81% hlut í bankanum, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Kaupverðið, miðað við 100% hlut í bankanum, er um 90 milljónir evra (sjö milljarðar íslenskar krónur).

Kaupin verða formlega tilkynnt til Kauphallar Íslands í dag í kjölfar kynningarfunds stjórnenda bankanna tveggja í París.

Landbankinn hefur fullan kauprétt á útistandandi bréfum í félaginu. Heimildamenn Viðskiptablaðsins innan Landsbankans segja að kaupin séu gerð til þess að skoða möguleika á því að nýta efnahagsreikning bankans í Suður-Evrópu og til þess að styðja við núverandi viðskiptavini bankans sem hafa áhuga að stunda viðskipti í suðurhluta álfunnar.

Hingað til hefur Landsbankinn ekki stundað útlán í Suður-Evrópu og hefur lánanefnd bankans ekki haft mikið svigrúm til þess að styðja við viðskiptavini sem horfa suður á bóginn, segja heimildamenn Viðskiptablaðsins.

Kepler-bankinn stundar einna helst hlutabréfabréfaviðskipti og hefur átt undir högg að sækja síðustu ár. Kennitölur sem segja til um gengi félagsins hafa ekki verið gefnar upp að svo stöddu. Kepler starfar í sex löndum í Evrópu og með kaupunum mun Landsbankinn nýta viðskiptanet bankans til frekari vaxtar í Suður-Evrópu. Kepler er einnig með starfsemi í New York.

Kaup bankans, segja sérfræðingar, eru í samræmi við yfirtöku bankans á breska fjárfestinga? og verðbréfabankanum Theather & Greenwood (T&G). Landsbankamenn vildu ekki tjá sig um það hvort að það stæði til að sameina T&G og Kepler og láta félögin tvö renna undir Landsbankann.

Kepler er fyrrverandi miðlunarhús svissneska einkabankans Julius Baer. Bréf í Baer skutust upp í síðustu viku vegna orðróms um að bankin ætti í yfirtökuviðræðum við nokkra aðila. Bréf bankans hækkuðu um 8,4% á föstudaginn og endaði gengið í 90,65 svissneskum frönkum.

Sérfræðingar sem Viðskiptablaðið hafði samband við velta því fyrir sér hvort að bréfin í Baer hafi hækkað vegna fyrirhugaðra kaupa Landsbankans á Kepler og að ekki hafi verið gerður greinarmunur á því að bankinn væri að selja sjálfstæða verðbréfaeiningu sína.

Hugsanlegir kaupendur af Baer hafa neitað að tjá sig við fjölmiðla. Þeir eru svissneski fjáfestingarbankinn UBS, Credit Suisse Group (áður CSFB), franski risabankinn BNP Paribas, sem varð til með samruna Banque National de Paris og Banque Paribas, og breski bankinn Royal Bank of Scotland.