Landsbanki Íslands hf. [ LAIS ] hefur samið við Kaupþing banka hf. [ KAUP ] um viðskiptavakt með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. fyrir eigin reikning Kaupþings banka hf, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar.   Samningurinn felur í sér að sett verða fram daglega kaup- og sölutilboð í hlutabréf Landsbanka Íslands hf. í því skyni að markaðsverð skapist á hlutabréfunum og verðmyndun verði með skilvirkum og gagnsæjum hætti.  Tilboð eru sett fram í viðskiptakerfi OMX Nordic Exchange á Íslandi, áður en markaður er opnaður og skulu ekki gilda lengur en innan dagsins.

Skilmálar viðskiptavakasamningsins eru eftirfarandi:

Kaupþing banki hf. skuldbindur sig til að setja daglega fram kaup- og sölutilboð í hlutabréf Landsbanka Íslands hf. að lágmarki 1.000.000 hlutir  og skulu tilboð vera á því gengi sem Kaupþing banki hf. ákveður í hvert skipti.

Hámarksmunur á kaup- og sölutilboðum skal ekki vera meiri en 1,0% og frávik frá síðasta viðskiptaverði ekki meira en 3,0%.

Hámarksfjárhæð heildarviðskipta sem Kaupþing banki hf. skuldbindur sig til að vera þátttakandi að dag hvern skal vera kr. 400.000.000,- að markaðsverði.

Kaupþing banki hf. hefur viðskiptavaktina í dag.