Heildarkostnaðurinn við rekstur Landsbankans á síðasta ári nam um 12 milljörðum króna að því er fram kom á kröfuhafafundi í vikunni. Langstærstu kostnaðarliðirnir eru laun og launaliðir, tæplega 3,5 milljarðar króna, og lögfræðikostnaður og annar sérfræðikostnaður, rúmlega 5,1 milljarður kr.

Við sundurgreiningu kostnaðarliða sést að kostnaður vegna starfsemi LBI hf. á Íslandi nemur um 5 milljörðum króna; þar af er rúmlega einn milljarður færður til bókar á Íslandi vegna kostnaðar erlendra sérfræðinga við fullnustu stórra eigna erlendis.

Heildarkostnaður við starfsemi ræðst meðal annars af því að bankinn rekur viðamikla starfsemi erlendis, sérstaklega í Bretlandi, en einnig í Hollandi og Kanada.