„Þetta er tilboð sem felur í sér sérkjör sem bjóðast skilvísum og virkum Vörðufélögum almennt. Þessi kjör eru því í boði fyrir alla sem uppfylla skilyrði um aðild að Vörðunni," segir Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans (NBI), um tilboð bankans til starfsmanna Háskóla Íslands sem Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag .

Samkvæmt tilboðinu bjóðast starfsmönnum HÍ tilboðskjör, m.a. á tryggingaviðskiptum hjá Verði tryggingarfélagi, ef þeir gerast félagar í Vörðunni. Kristján segir tilboðið alvanalegt og eðlilegt.

„Alsiða er, og hefur verið, að bankar nálgist nýja hópa viðskiptavina með þessum eða svipuðum hætti. Bankinn hefur talið kjör Vörðunnar í eðli sínu eftirsóknarverð og býður því nýjum viðskiptavinum að leita eftir inngöngu í hana," sagði Kristján í samtali við Viðskiptablaðið.