Hömlur, dótturfélag Landsbankans hefur sett hjólbarðaverkstæðið Sólningu í Kópavogi í söluferli. Það er fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans sem sér um söluna.

Sólning er rétt rúmlega 40 ára gamalt fyrirtæki og rekur fjögur verkstæði undir eigin merkjum auk hjólbarðaverkstæðisins Barðans. Fyrirtækin voru dótturfélög Toyota, sem var hluti af eignasafni útgerðarmannsins Magnúsar Kristinssonar í Vestmannaeyjum. Magnús keypti fyrirtækið árið 2006. Landsbankinn tók rekstur Sólningar yfir í fyrravor.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að söluferlið verði í tveimur þrepum. Í því fyrra fá þeir fjárfestar sem uppfylla skilyrði fyrir þátttöku á fyrra stigi söluferlisins afhent ítarleg kynnignargögn um Sólningu. Fyrra ferlinu lýkur með tilboði. Í hinu þrepinu fá þeir sem lögðu fram hagstæðustu tilboðin aðgang að gagnaherbergi og fund með stjórnendum félagsins.

Stefnt er að því að ljúka söluferlinu fyrir lok apríl, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbankanum.

Landsbankinn
Landsbankinn
© BIG (VB MYND/BIG)