Afkoma Landsbankans var jákvæð um 6,4 milljarða króna eftir skatta fyrstu þrjá mánuði ársins 2015 en hagnaður á sama tímabili árið 2014 nam 4,3 milljörðum króna. Kemur þetta fram í tilkynningu frá bankanum til Kauphallar.

Rekstrartekjur bankans hafa aukist sem skýrist að miklum hluta af auknum hagnaði af hlutabréfum á tímabilinu. Kostnaðarhlutfall lækkaði úr 72% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2014 en var 48% á sama tímabili í ár. Arðsemi eigin fjár eftir skatta nam 10,6% samanborið við 7,3% fyrir sama tímabil árið 2014.

Hreinar vaxtatekjur námu 7,3 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins í samanburði við 7,9 milljarða króna á sama tímabili árið 2014. Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna lækkar, var 2,6% á fyrstu þremur mánuðum ársins en 2,7% á sama tímabili árið 2014.

Hreinar þjónustutekjur námu 1,6 milljörðum króna og hafa aukist um 8% frá sama tímabili árið áður og virðisbreytingar útlána á fyrstu þremur mánuðum ársins voru jákvæðar um 1,6 milljarða króna.

Eigið fé bankans nam í lok mars um 233,9 milljörðum króna og hefur það lækkað um 7% frá áramótum. Lækkunin skýrist af 24 milljarða króna arðgreiðslu til hluthafa. Eiginfjárhlutfall bankans (CAR – Capital Adequacy Ratio) er nú 26,7% en var 24,8% í lok mars 2014.

Heildarvanskil hjá fyrirtækjum og heimilum stóðu í 2,3% í lok mars 2015, og standa í stað á árinu.

Í tilkynningu er haft eftir Steinþóri Pálssyni bankastjóra að Rekstur bankans hafi gengið vel það sem af sé ári. viðamikilli stefnumótun til næstu fimm ára hafi lokið á fyrsta ársfjórðungi en markmið stefnunnar sé að tryggja arðsaman og hagkvæman rekstur til lengri tíma.