Landsbanki Íslands er á meðal þeirra fyrirtækja sem eru að skoða kaup á breska verðbréfafyrirtækinu Bridgewell, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Bridgewell, sem er skráð á AIM-markaðinn í London, hefur verið sett í sölumeðferð og einnig er talið að seljendur hafi sett sig í samband við Kaupþing. Hins vegar segja heimildarmenn blaðsins að Kaupþing hafi ekki áhuga á að kaupa Bridgewell.

Markaðsvirði Bridgewell er um 53 milljónir punda, sem samsvarar tæplega sjö milljörðum króna, og hafa að minnsta kosti þrír hugsanlegir kaupendur skoðað fyrirtækið. Belgíski bankinn Fortis Banque er á meðal þeirra, ásamt hollenska bankanum Rabobank og kanadíska verðbréfafyrirtækinu Canaccord.

Landsbanki Íslands hefur áður fjárfest í verðbréfafyrirtækjum, sem sérhæfa sig í viðskiptum við minni og millistór fyrirtæki. Bankinn eignaðist breska verðbréfafyrirtækið Teather & Greenwood árið 2005 og hefur einnig keypt ráðandi hluti í evrópska félaginu Kepler Equities og írska fyrirtækinu Merrion Capital.