365 miðlar skuldbreyttu langtímaláni félagsins við Landsbankann þann 13. maí í fyrra. Félagið greiddi lánadrottni sínum 250 milljónir króna við undirritun þess samkomulags gegn því að eftirstöðvum lánsins var skipt upp í tvö önnur lán sem eru á gjaldaga 2012-2014. Eftirstöðvar langtímaskulda félagsins  um síðustu áramót voru 5,2 milljarðar króna. Endurskoðendur félagsins benda í áritun sinni á að ef „Ef áætlanir félagsins um fjárstreymi næstu ára standast ekki mun ríkja óvissa um rekstarhæfi félagsins“.

Þetta kemur fram í ársreikningi 365 miðla sem skilað var inn til ársreikningaskráar 1. september síðastliðinn.  Félagið á og rekur m.a. Stöð 2, Fréttablaðið, Vísi.is og Bylgjuna.

365 miðlar birtu helstu upplýsingar um fjárhagslegt uppgjör sitt í byrjun ágúst síðastliðins. Þar kom fram að hagnaður félagsins hefði verið 360 milljónir króna í fyrra en félagið hafði tapað 344 milljónum króna árið áður. EBITDA (hagnaður fyrir fjármagnskostnað og afskriftir) 365 í fyrra var rúmur milljarður króna. Tekjur 365 á árinu 2010 voru 8,6 milljarðar króna og jukust úr 8 milljörðum króna 2009,. Framlegð var 2,9 milljarðar króna en hafði verið 2,5 milljarðar árið áður.

Eignir tæpir 10 milljarðar

Í ársreikningnum kemur fram að eignir 365 eru metnar á tæpa 10 milljarða Þar af eru 5,9 milljarðar króna í formi óefnislegra eigna.  Skuldir eru um 8 milljarðar og eigið fé um 2 milljarðar. Skuldir við lánastofnanir eru 4,4 milljarðar og lækkuðu um tæpan hálfan milljarða króna frá 2009. Heildarskuldir jukust samt sem áður um tæpar 400 milljónir króna.

Þann 13. maí 2010 undirritaði 365 samning við Nýja Landsbankann um skuldbreytingu á langtímaláni félagsins. Í skýringum ársreikningsins segir að samningurinn hafi falið í sér að 250 milljónir væri til greiðslu við undirritum hans og að „eftirstöðvum lánsins frá NBI hf. er síðan skipt upp í tvö lán. Annað lánið er með föstum afborgunum þar sem 121 millj. kr. eru til greiðslu ársfjórðungslega frá ágúst 2011 og eftirstöðvar í nóvember 2014 eða 1.815 millj. kr. hitt lánið er kúlulán að fjárhæð 1.200 millj. kr. á gjalddaga 6. ágúst 2012 en með möguleika á framlengingu um 1 ár, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, og ársfjórðungslegum  vaxtagreiðslum. [...] Allar eignir félagsins eru veðsettar sem trygging fyrir endurgreiðslu á lánunum og eru hömlur settar á viðbótarlántökur og fjárfestingar. Lánasamningarnir fela einnig í sér ákveðin fjárhagsskilyrði sem stjórn félagsins telur að það muni áfram geta uppfyllt“.

Ábending án fyrirvara

Í áritun endurskoðenda 365 er gerð ábending um ofangreint án þess að fyrirvari sé gerður við álit þeirra. Þar segir að í skýringum sé greint frá því að veltufjárhlutfall 365 hafi verið 0,75 í lok árs 2010 og að „á grundvelli skuldbreytingar lána[...]og áætlana fyrir árið 2011 telja stjórnendur félagsins að það sé rekstarhæft um fyrirsjáanlega framtíð. Ef áætlanir félagsins um fjárstreymi næstu ára standast ekki mun ríkja óvissa um rekstarhæfi félagsins. Framsetning eigna og skulda í efnahagsreikningi er byggð á áframhaldandi rekstrarhæfi félagsins. Upplausnarvirði félagsins gæti verið frábrugðið bókfærðu virði þess yrði starfsemin lögð af“.

Hlutafé 365 var aukið um 1 milljarð 27. mars 2010. Ingibjörg Pálmadóttir eða félög í hennar eigu eiga 90% af A-hlutum í félaginu og 99,99% af B-hlutum.

Stöðugildi í 365-samstæðunni voru 426 um síðustu áramót og hafði fækkað úr 440 árið 2009. Laun og launatengd gjöld voru 2.724 milljónir og hækkuðu um 136 milljónir milli ára.